Síðasti dagur á bikarmótum helgarinnar var í dag í Bláfjöllum.
Í skíðagöngu kepptu stelpurnar í 3,5km göngu með hefðbundinni aðferð, Ragnhildur Vala varð í 2.sæti, Karen Helga í 3.sæti, Svava Rós í 4,sæti og Guðrún Ósk í 7.sæti. Í alpagreinum var áfram keppt í svigi. Þær Bríet Brá, Hanna Valdís og Natalía Perla keyrðu allar útúr í dag, ýmist í fyrri eða seinni ferð. Engu að síður flott helgi hjá stelpunum og virkilega gaman að þær séu búnar að fara á sitt fyrsta bikarmót.
Um helgina voru námskeið í skíðagöngu hjá okkur í samstarfi við Hótel Sigló og Mundo. Alls voru rúmlega 90 manns á námskeiðum, þeim skipt niður á 8 þjálfara og dreifðust á allt að 4 svæði við æfingar. Námskeiðið tókst mjög vel að okkar mati, strangar kröfum vegna Covid flækja námskeiðahald sem þetta en fólk var mjög ánægt með dvölina hjá okkur. Um næstu helgi er einnig áætlað til okkar um 100 manns á skíðagöngunámskeið.
Skíðasvæðið skartaði sínu fegursta þessa helgi, frábært veður og nægur snjór. Tindaöxl var opin bæði laugardag og sunnudag, troðnar voru skíðagöngubrautir í Bárubraut, á knattspyrnuvellinum og í miðbænum við tjörnina.