Veður setti strik í reikninginn á Skíðamóti Íslands í alpagreinum sem fram fór í Bláfjöllum. Upphaflega átti að keppa í stórsvigi á föstudag, svigi á laugardag og samhliðasvigi á sunnudag. Á fimmtudegi var ákveðið að keyra bæði stórsvig og svig á föstudag vegna slæmrar veðurspár fyrir laugardag. Það gekk ekki eftir þar sem mikið snjóaði í Bláfjöllum aðfaranótt föstudags svo keppni var færð yfir á laugardag.
Á laugardag hófst því keppni í stórsvigi um morguninn. Þar var Matthías í 4.sæti eftir fyrri ferð en náði því miður ekki að klára seinni ferðina. Eftir hádegi var svo keppt í svigi þar sem Matthías var í harðri baráttu við liðsfélaga sinn úr NTG, Bjarna Þór Hauksson. Eftir fyrri ferðina var Matthías með besta tímann eða 0,06 sek á undan Bjarna. Seinni ferðin gekk ekki alveg eins vel hjá okkar manni, en 2.sætið staðreynd og 0,49 sek á eftir Bjarna.
Aðstæður til keppni voru erfiðar þar sem mjög vindasamt var á svæðinu en mótshaldarar gerðu mjög vel við erfiðar aðstæður. Keppni í samhliðasvigi féll niður.
Skíðafélag Ólafsfjarðar óskar Matthíasi innilega til hamingju með 2.sætið í sviginu og verður spennandi að fylgjast með honum í framtíðinni.