Matthías Kristinsson er mættur til leiks eftir þriggja mánaða endurhæfingu. Matti keppti síðast 5.desember síðastliðinn og var þá farinn að finna fyrir verkjum í baki. Eftir nánari skoðun varð ljóst að um beinmar í mjóbaki var að ræða. Eina ráðið við henni er að draga úr æfingum og fara í endurhæfingu sem tekur um 3 mánuði. Mattías fór aftur að skíða fyrir um tveimur vikum og er nú mættur til Íslands.
Atomic Cup var haldið í Oddsskarði 25. og 26. mars þar sem okkar maður var mættur til leiks. Keppt var í tveimur stórsvigum þann 25. og tveimur svigmótum þann 26.mars. Matthías varð í 4.sæti í öðru svigmótinu en keyrði útúr í fyrri ferð í hinu. Í stórsviginu varð hann í 5.sæti í öðru mótinu og 6.sæti í hinu. Allir bestu skíðamenn landsins eru samankomnir fyrir austan.
Skíðamót Íslands í alpagreinum hefst svo á morgun föstudaginn 27.mars þegar keppt verður í stórsvigi. Á laugardag er keppt í svigi og sunnudag í samhliðasvigi.
Það er virkilega gaman að sjá að Matthías er kominn af stað aftur og óskum við honum góðs gengis á SMÍ