Í dag héldum við upp á 20 ára afmæli Skíðafélags Ólafsfjarðar. Jólakvöld var í miðbæ Ólafsfjarðar og þar vorum við mætt með okkar tæki og tól auk þess sem við höfðum sett saman smá sögusýningu um skíðaíþróttina í Ólafsfirði.
Afmælisveislan var haldin að Aðalgötu 14 og viljum við fyrst og fremst þakka öllum þeim sem kíktu á okkur og einnig öllum þeim sem lánuðu okkur fatnað, skíðabúnað og myndir í sýninguna. Árni Helgason takk fyrir að lána okkur húsnæði!
Skíðafélag Ólafsfjarðar varð 20 ára 18.október síðastliðinn, en skíðasaga Ólafsfjarðar nær auðvitað miklu lengra aftur í tímann. Við settum upp smá sýningu þar sem við sýndum m.a. gönguskíði, svigksíði og stökkskíði frá mismunandi tímabilum. Púðapeysur, púðabuxur, göngugalla, jakka, skíðapoka og margt fleira frá fyrri tíð og allt fram í einkennisfatnað SÓ í dag. Ljósmyndasýningar voru á þremur skjáum, þær sýndu frá starfsemi félagsins frá 2001-2012, önnur frá 2012-2021 og svo ljósmyndir frá Svavari B Magnússyni sem náðu aftur til 1960 (ca) og til dagsins í dag. Útprentaðar myndir voru á veggjum og úrslit frá fyrri tíð, þau elstu frá Skíðamóti Ólafsfjarðar í stökki, svigi og göngu sem haldið var 1953.
Snjótroðari félagsins var á svæðinu, snjóbyssa, fánar og skraut setti svip sinn á Aðalgötuna og að sjálfsögðu var troðið smá spor.
Enn og aftur, takk allir fyrir komuna og aðstoðina, við erum mjög ánægð með þetta allt.
Nokkrar myndir frá viðburðinum má sjá hér......