Eins og flestum er kunnugt um hefur Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar selt fasteign sína, Hól á Siglufirði. Skíðafélag Ólafsfjarðar er eitt af aðildarfélögum UIF og samþykkti eins og önnur íþróttafélög innan hreyfingarinnar að selja húsið.
Yfirlýsing frá stjórn UIF fylgir hér fréttinni.
Yfirlýsing stjórnar UÍF vegna sölunnar á Hóli
Íþróttamiðstöðin að Hóli hefur verið seld, þ.e. húsnæði íþróttahreyfingarinnar, ásamt lóðaréttindum.
Íþrótta- og útivistarsvæðið í Hólsdal er í eigu Fjallabyggðar sem ber ábyrgð á nýtingu þess. Vel sótt
ársþing Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar síðasta vor samþykkti samhljóða að setja húsið
í söluferli. Í kjölfarið var gert verðmat á húsnæðinu sem hljóðaði upp á 50-60 milljónir. Húsið var
auglýst til sölu í ágúst og bárust tvö tilboð. Stjórn UÍF gerði þeim er hærra bauð gagntilboð og eftir
viðræður var skrifað undir kaupsamning sem hljóðar upp á 60 milljónir, kaupandinn er Siglóhóll ehf.
Ekki hefur verið ákveðið hvernig fjármunum verður ráðstafað en þeir munu nýtast til að efla
íþróttastarfið til frambúðar.
Íþróttamiðstöðin að Hóli var gjöf Siglufjarðarkaupstaðar til íþróttahreyfingarinnar í Siglufirði og var
ÍBS afhent gjafaafsal þess efnis árið 1969. Blómlegt íþrótta- og félagsstarf starf var á svæðinu næstu
áratugi. Fjöldi manns lagði á sig mikla vinnu við uppbyggingu starfsins og viðhald hússins og
endurbætur á því. Er öllum sjálfboðaliðum færðar kærar þakkir fyrir fórnfúst starf í þágu
íþróttahreyfingarinnar. Æska Siglufjarðar síðustu áratugi og einnig þeir sem eldri eru eiga þaðan
margar góðar minningar.
Tímarnir hafa breyst, skíðasvæðið var fært í Skarðið fyrir þremur áratugum. Við sameiningu
Siglufjarðar og Ólafsfjarðar ákváðu bæjaryfirvöld að aðal keppnis- og æfingasvæði knattspyrnu skyldi
vera í Ólafsfirði. Nýr golfvöllur og golfskáli hafa verið tekin í notkun hinum megin í Hólsdalnum svo og
upphitaður og upplýstur sparkvöllur á skólalóð GF fyrir áratug. Sparkvöllurinn er mikið nýttur til
knattspyrnuiðkunar og æfinga. Notkun hússins á Hóli hefur því verið mjög lítil undanfarin ár í íþrótta-
og félagslegu tilliti. Stöku fundir og viðburðir hafa verið haldnir þar og salernisaðstaða er nýtt á
knattspyrnuæfingum á sumrin.
Önnur mjög stór breyta, sem oft gleymist að taka með í reikninginn, sérstaklega hjá brottfluttum sem
ekki lifa og hrærast í samfélagi okkar, er barnafjöldinn. Á blómatíma Hóls, frá 1970 – 1990, má ætla
að nær 600 börn hafi verið á grunnskólaaldri á Siglufirði þegar mest var. Um 1990 voru börnin
tæplega 400 talsins en í dag eru þau um 120. Þrátt fyrir mikla fækkun barna hafa þessi börn úr
mörgu að velja þegar kemur að íþrótta- og félagsstarfi. Þau geta æft knattspyrnu, skíði, blak,
badminton, jazzdans, stundað hestamennsku, verið á golfnámskeiðum, leikjanámskeiðum og í
íþróttaskóla. Misjafnt þó eftir aldursflokkum. Svo er það tónskólinn og félagsmiðstöðin og annað
félagsstarf eins og unglingastarf björgunarsveitanna.
Rekstur hússins á Hóli hefur bæði verið tíma- og fjárfrekur. Um árabil fóru t.d. allar lottótekjur og
aðrar tekjur, sem áttu að fara í íþróttastarf félaganna, í rekstur Hóls og dugði það þó ekki til. Það voru
þó aðeins tvö til þrjú félög sem nýttu húsnæðið að einhverju marki. Þegar íþrótta- og félagsstarf á
Hóli var orðið eins lítið og raun ber vitni var tímabært að endurskoða eignarhald
íþróttahreyfingarinnar á húsnæðinu.
Húsið hefur verið leigt út til að skapa tekjur en þær hafa aðeins staðið undir rekstri hússins en ekki
viðhaldi þess undanfarin ár. Mjög kostnaðarsamar framkvæmdir eru fyrirliggjandi á fasteigninni þrátt
fyrir mikla sjálfboðavinnu við viðhald, þrif og umsjón hússins. Tengigangurinn hefur t.a.m. ekki verið
tekinn í notkun eftir brunann árið 2013. Skemman þarfnast einnig viðhalds svo og íbúðarhúsið sjálft.
Stjórn UÍF og aðildarfélög telja ekki forsvaranlegt að nýta þá fjármuni sem annars rynnu til
aðildarfélaga, til viðhalds og endurbóta á fasteigninni. Skuldsetning með lántöku kom heldur ekki til
greina.
Eins og áður segir þá verður Hólssvæðið áfram nýtt af íþróttahreyfingunni og almenningi öllum og
liggur því fyrir íþróttahreyfingunni að skoða möguleika á að koma upp hentugri aðstöðu á svæðinu,
vonandi í samstarfi við sveitarfélagið, sem myndi gagnast öllum, ásamt því að efla og styrkja blómlegt
starf íþróttafélaganna í Fjallabyggð. Góðar minningar um blómlegt starf á Hóli munu þó lifa um
ókomna tíð.
Stjórn UÍF