Í dag var Strandagangan haldin á Hólmavík. Frábær ganga sem vinir okkar á Hólmavík halda og voru rétt tæplega 200 manns skráðir til leiks!
Það er óhætt að segja að Skíðafélag Strandamanna sé eitt flottasta íþróttafélag landsins og það þekkja allir sem sækja þau heim. Strandagangan er skemmtilegur viðburður sem hefur vaxið undanfarin ár og er hvað þekktastur fyrir kaffiveisluna í lok móts. Skíðafélag Ólafsfjarðar átti nokkra þátttakendur í göngunni í dag sem stóðu sig frábærlega að vanda. Helgi Reynir Árnason sigraði í flokki 35-49 ára, Sigurbjörn Þorgeirsson sigraði í flokki 50-59 ára og Þórhallur Ásmundsson varð annar í flokki 70 ára og eldri. Allir gengu þeir 20 km.
Við óskum Skíðafélagi Strandamanna til hamingju með flottan viðburð en næsta Íslandsganga verður haldin í Bláfjöllum um næstu helgi.